Skip to main content

Fundur Evrópudeilda ICOMOS í Kraká

By júní 27, 2022Fréttir

Fundur Evrópudeilda ICOMOS var haldinn í Kraká í Póllandi í byrjun júní og sótti formaður Íslandsdeildar, Guðný Gerður tveggja daga ráðstefnu í tilefni af 50 ára afmæli samnings UNESCO um verndun náttúru- og menningarminja heimsins sem haldinn var í tengslum við Evrópufundinn.

Meginefni fundar Evrópuhópsins snertu Úkraínu og sendinefnd þaðan leidd af staðgengli menningarmálaráðherra og formanni landsdeildar ICOMOS í Úkraínu skýrði frá stöðu mála í stríðinu hvað varðar menningarminjar og  var áhrifamikið að heyra það sem þau höfðu að segja. Í máli þeirra kom fram að menningarminjar eru skotmark Rússa, sem þau telja eyðileggingu af ásetningi. Rússar viðurkenna ekki tilverurétt Úkraínu sem sjálfstæðs ríki og þar með ekki rétt þeirra til eigin menningararfs. Árásir á menningarminjar, byggingar, söfn og minjastaði eru því árás á sjálfsvitund Úkraínumanna. Staðir á heimsminjaskrá UNESCO eru í hættu ásamt stöðum á yfirlitsskrá, meðal þeirra eru borgirnar Kharkiv og Odessa. Árásir á menningarminjar eru brot á Haag samningnum frá 1954. Úkraínumenn leita eftir stuðningi alþjóðasamtaka við að vernda menningarminjar, bæði á meðan á stríðinu stendur og síðan þegar átökum lýkur. Nú þegar hafa ICOMOS, ICOM ásamt Bláa Skildinum brugðist við og sent búnað svo verja megi menningarminjar. Félagar okkar frá Úkraínu lögðu mikla áherslu á að síðan yrði þörf á aðstoð til endurheimtar menningararfs þegar átökum lýkur. ICOMOS Úkraína vill hefja strax skipulagningu og undirbúning endurbyggingar og er mest þörf á sérfræðiaðstoð við að kenna og þjálfa þeirra fólk. ICOMOS heitir fullum stuðningi og hefur þegar hafið undirbúning að því að skipuleggja það starf. Vinnuhópur ICOMOS um viðbrögð við vá hefur fylgst með frá upphafi stríðsins, aflað upplýsinga eftir ýmsum leiðum, heldur skrá yfir atvik dag fyrir dag.

Evrópuhópur ICOMOS samþykkti yfirlýsingu sem er að finna á vefsíðu ICOMOS ásamt frekari upplýsingum um viðbrögð ICOMOS við stríðinu í Úkraínu. Upplýsingarnar má finna hér:

https://www.icomos.org/en/77-articles-en-francais/106905-information-regarding-ukraine