Samþykktir fyrir Íslandsdeild ICOMOS – International Committee of Monuments and Sites   

I. NAFN OG HEIMILISFANG

1. gr. Nafn

Nafn samtakanna er Íslandsdeild ICOMOS, sem er aðili að International Committee of Monuments and Sites.

2. gr. Aðsetur

Heimilisfang Íslandsdeildar ICOMOS er hjá skrifstofu Minjastofnunar Íslands í Reykjavík.

II. MARKMIÐ OG STARFSEMI

3. gr. Markmið

Íslandsdeild ICOMOS starfar í anda markmiða ICOMOS sem skilgreind eru í 3. gr. samþykkta samtakanna frá 2014.  Deildin vinnur að verndun og varðveislu áþreifanlegra og óáþreifanlegra menningarminja.  Markmið hennar er að stuðla að því að auka skilning á mikilvægi menningararfs, menningarminja og umhverfis þeirra, á Íslandi og á alþjóðavísu.

4. gr. Starfsemi

Íslandsdeild ICOMOS vinnur að verkefnum á sviði verndunar menningarminja og skal framfylgja ákvörðunum aðalfunda ICOMOS og Íslandsdeildar ICOMOS . Deildin kemur á framfæri alþjóðlegum samþykktum og stuðlar að umræðu um menningarminjar og miðlun upplýsinga um þær innan lands og utan. Hún fjallar um grundvallar ákvarðanir um meðferð menningarminja, lögfræðilegs og tæknilegs eðlis og um stjórnsýslulega umönnun þeirra.

III. ALÞJÓÐLEGT SAMSTARF

5. gr. Svæðasamstarf

Íslandsdeild ICOMOS tekur þátt í samstarfi landsdeilda á Norðurlöndunum og í Evrópu. Deildin tekur þátt í samstarfsverkefnum á sviði verndunar menningarminja, aflar og miðlar upplýsingum um menningararf. Deildin styður við starf nýrra landsdeilda.

6. gr. Alþjóðlegt samstarf

Íslandsdeild ICOMOS stuðlar að samstarfi við Íslensku heimsminjanefndina og veitir ráðgjöf varðandi val á minjastöðum á yfirlitsskrá heimsminja og undirbúningi tilnefninga á heimsminja-skrá UNESCO, samkvæmt samningi um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins frá 1972. Íslandsdeild ICOMOS skal leitast við að verða við óskum ICOMOS um ráðgjöf varðandi tilnefningar og val á sérfræðingum við mat á tillögum og ennfremur um að taka á móti ráðgjöfum vegna tilnefninga og mats á heimsminjastöðum.

IV. AÐILD

7. gr. Aðild

Allir félagar ICOMOS á Íslandi eru félagar í Íslandsdeild ICOMOS. Aðild að Íslandsdeild ICOMOS getur verið með fernum hætti: einstaklingsaðild, stofnanaaðild, styrktaraðild og heiðurs-aðild. Rétt á aðild að Íslandsdeild ICOMOS eiga einstaklingar og stofnanir sem uppfylla fagleg skilyrði samkvæmt,  greinum 5-a og 5-b, í samþykktum ICOMOS frá 2014.  Þeir skulu hafa sérfræðiþekkingu á einhverju þeirra sviða sem snerta markmið ICOMOS sbr. 3. gr. samþykkta samtakanna.

8. gr. Undirflokkar aðildar

Ungir fagmenn undir þrítugu eiga rétt á aðild með sömu faglegum skilyrðum og gilda um aðra félagsmenn. Þeir greiða lægra árgjald, sbr. 6. gr. samþykkta ICOMOS.  Námsmenn eiga rétt á aðild með sömu faglegu skilyrðum og greiða þeir sama árgjald og ungir fagmenn.

9. gr. Umsókn um aðild

Umsókn um aðild skal berast skriflega til stjórnar sem skal senda umsækjanda  staðfestingu á inntöku. Nýr félagsmaður skal greiða árgjald sbr. 15. gr. samþykkta Íslandsdeildar ICOMOS.
Allir félagsmenn, að heiðursfélögum undanskildum, greiða árgjald og fá send félagsskírteini ICOMOS og njóta þá þeirra hlunninda sem stjórn ICOMOS ákveður.

10. gr. Skyldur félagsmanna

Félagsmenn skulu:
a. hlíta ákvörðunum aðalfundar ICOMOS, stjórnar ICOMOS og aðalfundar og stjórnar Íslandsdeildar ICOMOS.
b. hlíta siðareglum ICOMOS sem samþykktar voru af aðalfundi ICOMOS í Flórens 2014, með þeim breytingum sem kunna að vera gerðar á þeim.

11. gr. Skyldur stofnana með aðild

Stofnun sem gerist félagi skal tilnefna faglega hæfan fulltrúa sem annast samskipti við Íslandsdeild ICOMOS og fer með umboð stofnunarinnar gagnvart Íslandsdeild ICOMOS.

12. gr. Lok aðildar að félaginu

Félagsmaður er ekki lengur félagi í Íslandsdeild ICOMOS:
a. ef árgjald hefur ekki verið greitt fyrir 1. maí hvert ár.
b. ef félagsmaður segir sig úr deildinni.
c. við andlát.
d. ef samtök eða stofnun sem félagi er fulltrúi fyrir eru lögð niður.
e. ef félagsmaður er tekinn af félagaskrá af stjórn ICOMOS eða stjórn Íslandsdeildar ICOMOS í samræmi við grein 7a. í samþykkt ICOMOS.

13. gr. Synjun um aðild

Synjun um aðild má áfrýja til stjórnar ICOMOS og skal erindi um það beint til skrifstofu samtakanna í París.

V. FJÁRMÁL

14. gr. Tekjur

Íslandsdeild  ICOMOS er heimilt að afla tekna til starfsemi sinnar með ýmsu móti, þar á meðal með árgjaldi félagsmanna, gjöfum, styrkjum, þóknun fyrir veitta þjónustu, aðgangseyri að viðburðum og á annan þann hátt sem stjórn ákveður, enda sé það gert á  löglegan  og viðeigandi hátt.
Tekjur sem Íslandsdeild ICOMOS aflar skulu lagðar inn á bankareikning sem stofnaður er í nafni deildarinnar. Reikningsár Íslandsdeildar ICOMOS er almanaksárið.

15. gr. Árgjald

Félagsmenn greiða árgjald samkvæmt viðeigandi flokki aðildar. Árgjald samanstendur annars vegar af upphæð sem ákveðin er af stjórn ICOMOS og skal skila til skrifstofu alþjóðasamtakanna og hins vegar af upphæð sem Íslandsdeild ICOMOS innheimtir til að kosta starfsemi deildarinnar.

VI. STJÓRNSKIPAN

16.  gr. Stjórnskipan

Aðalfundur er æðsta stjórnvald Íslandsdeildar ICOMOS. Milli aðalfunda fer stjórn deildarinnar með umboð aðalfundar. Stjórnin annast daglegan rekstur deildarinnar og kemur saman eftir þörfum, þó ekki sjaldnar en þrisvar á ári.

17. gr. Aðalfundur

Allir félagsmenn sem hafa greitt árgjald hafa kosningarétt  á aðalfundi.
Aðalfund skal halda fyrir 31. maí ár hvert. Fundarboð með dagskrá skal senda til allra félagsmanna með þriggja vikna fyrirvara. Óskum um að fjallað verði um ákveðin mál á aðalfundi skal skilað til stjórnar eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund. Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað.

Á dagskrá aðalfundar skal vera:
a. Skýrsla stjórnar um starfsemi deildarinnar.
b. Reikningar deildarinnar, bornir upp til samþykktar.
c. Fjárhags- og starfsáætlun.
d. Ákvörðun þess hluta árgjalds sem fer til starfsemi deildarinnar.
e. Stjórnarkjör. Kosning formanns, ritara, gjaldkera og tveggja varamanna.
f. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga.
g. Önnur mál

Á aðalfundum skal einnig ákveða hverjir fari með atkvæði Íslandsdeildar ICOMOS á aðalfundi ICOMOS, í samræmi við 9. gr. samþykkta ICOMOS.

18. gr. Auka-aðalfundur

Aðalfund skal halda árlega. Boða skal til auka-aðalfundar ef meiri hluti félagsmanna fer fram á það. Skal stjórn þá boða til fundar innan viku frá því að henni berst beiðnin og fundur skal haldinn innan þriggja vikna.

19. gr. Verkefni stjórnar

Á milli aðalfunda fer stjórn með daglegan rekstur í samræmi við samþykkta fjárhags- og starfsáætlun, þ.m.t. innheimtu félagsgjalda og skil á þeim til skrifstofu ICOMOS, ásamt því að annast innlend og erlend samskipti. Stjórn tilnefnir fulltrúa í húsafriðunarnefnd sbr. 9. grein laga um menningarminjar nr. 80/2012.

20. gr. Skipan stjórnar

Stjórn er skipuð formanni, ritara og gjaldkera, ásamt tveimur varamönnum, kjörnum af aðalfundi. Meirihluti stjórnar skal vera félagsmenn með einstaklingsaðild.

21. gr. Kjörtímabil stjórnar

Stjórnarmenn eru kosnir til  þriggja ára  í senn og er heimilt að sitja þrjú kjörtímabil í röð. Allir fullgildir félagsmenn, þ.m.t. fulltrúar stofnana sem eiga aðild að deildinni, eru kjörgengir til stjórnar.

Hætti stjórnarmaður störfum milli aðalfunda skal varamaður taka sæti hans fram að næsta aðalfundi.

22. gr. Ákvarðanir stjórnar

Við ákvarðanir stjórnar ræður einfaldur meirihluti. Geti stjórnarmaður ekki mætt á stjórnarfund er honum heimilt að veita öðrum stjórnarmanni skriflegt umboð sitt. Hver stjórnarmaður getur þó ekki farið með fleiri en tvö atkvæði.

23. gr. Umboð stjórnar

Stjórn getur falið einum eða fleiri stjórnarmönnum skriflegt umboð til að annast tiltekin verkefni stjórnar, t.d. samningsgerð eða fjármál. Ákvarðanir teknar í umboði stjórnar skulu staðfestar af stjórn deildarinnar.

VII. HLUTVERK OG VERKEFNI STJÓRNAR

24. gr. Formaður

Formaður er kjörinn af aðalfundi til þriggja ára í senn og má sitja þrjú kjörtímabil.
Formaður boðar stjórnarfundi, gerir tillögu að dagskrá og stýrir fundum.
Formaður á sæti í ráðgjafanefnd ICOMOS (Advisory body) sem fulltrúi Íslandsdeildar ICOMOS.
Formaður ber ábyrgð á samskiptum deildarinnar við stjórn ICOMOS.

25. gr. Ritari

Ritari er kjörinn af aðalfundi til þriggja ára í senn og má sitja þrjú kjörtímabil.
Ritari skráir fundargerðir funda deildarinnar og ber ábyrgð á vistun gagna.
Ritari annast miðlun upplýsinga til félagsmanna.

26. gr. Gjaldkeri

Gjaldkeri er kjörinn af aðalfundi til þriggja ára í senn og má sitja þrjú  kjörtímabil.
Gjaldkeri annast fjármál deildarinnar.
Gjaldkeri sér um innheimtu árgjalds og annast samskipti við skrifstofu ICOMOS vegna fjármála.
Gjaldkeri heldur félagaskrá í samræmi við reglur ICOMOS.

27. gr. Kosningar

Við atkvæðagreiðslu á aðalfundi nægir einfaldur meirihluti nema til lagabreytinga. Ef atkvæði falla jöfn ræður atkvæði formanns. Til lagabreytinga þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.
Geti félagsmaður ekki mætt á aðalfund er honum heimilt að veita öðrum félagsmanni umboð sitt. Skal sá sem veitir öðrum umboð tilkynna það formanni fyrir aðalfund. Hver félagsmaður getur þó ekki farið með fleiri en tvö atkvæði.

VIII. AÐALFUNDUR ICOMOS (GENERAL ASSEMBLY)

28. gr. Aðalfundur ICOMOS

Allir félagsmenn hafa rétt til að sitja aðalfund ICOMOS. Atkvæðaréttur deildarinnar fer eftir fjölda félagsmanna samkvæmt gr. 9a í samþykktum ICOMOS.
Íslandsdeild ICOMOS skal tilkynna alþjóðaskrifstofu ICOMOS hver fer með atkvæði og umboð deildarinnar á aðalfundi ICOMOS, eins og kveðið er á um í starfsreglum um aðalfund ICOMOS (Rules of procedure of the ICOMOS General Assembly). Að öllu jöfnu skulu stjórnarmenn ásamt varamönnum vera meðal þeirra sem fara með atkvæði Íslandsdeildar á aðalfundi ICOMOS, nema annað sé samþykkt af aðalfundi Íslandsdeildar ICOMOS.
Félagsmenn með einstaklingsaðild skulu vera í meirihluta fulltrúa sem fara með atkvæði Íslandsdeildar ICOMOS á aðalfundi ICOMOS.

IX. STARFSHÓPAR OG UNDIRNEFNDIR

29. gr. Skipan starfshópa

Stjórn eða aðalfundur geta skipað vinnuhópa til að fjalla um sérstök viðfangsefni, aðferðafræðileg vandamál eða tæknileg. Kallaðir skulu til sérfræðingar eftir því sem þurfa þykir. Vinnuhópar geta verið tengiliðir við alþjóðlegar vísindanefndir ICOMOS. Vinnuhópar skulu gera stjórn og aðalfundi grein fyrir störfum sínum.

30. gr. Stofnun landsdeilda vísindanefnda

Íslandsdeild ICOMOS skal hvetja til þess að settar verði á fót landsnefndir alþjóðlegra vísindanefnda (International Scientific Committee). Til formennsku í landsdeild vísindanefndar skal kjörinn einstaklingur með sérfræðiþekkingu á starfssviði viðeigandi alþjóðlegrar vísindanefndar. Formaður landsdeildar annast samskipti við og fer með atkvæði á fundum alþjóðlegu vísindanefndarinnar. Ef ekki er starfandi landsdeild vísindanefndar skal formaður annast slík samskipti.

31. gr. Samstarf við alþjóðlegar vísindanefndir

Íslandsdeild ICOMOS  skal hvetja félagsmenn til að taka þátt í starfi alþjóðlegu vísindanefnda ICOMOS og í starfi landsdeilda vísindanefnda.

X. VIÐAUKI

32. gr. Breyting á samþykktum

Samþykktum Íslandsdeildar ICOMOS verður aðeins breytt á löglega boðuðum aðalfundi, með 2/3 hlutum greiddra atkvæða. Tillögur að lagabreytingum skal senda í  aðalfundarboði með þriggja vikna fyrirvara. Stjórn ICOMOS skal staðfesta lagabreytingar.

XI. SLIT FÉLAGSINS

33. gr. Félagsslit

Aðalfundur getur ákveðið að leggja niður Íslandsdeild ICOMOS og þarf til þess 2/3 hluta atkvæða aðalfundi og auka aðalfundi sem haldinn skal innan tveggja mánaða. Stjórn ICOMOS þarf að staðfesta ákvörðun landsnefndar um að deildin skuli lögð niður.

34. gr. Ráðstöfun eigna við félagsslit

Verði deildin lögð niður skulu eignir hennar, ef einhverjar eru, renna til samtaka sem starfa að verndun og miðlun menningararfsins, að fengnu samþykki stjórnar ICOMOS.

Samþykkt af framhalds-aðalfundi 5. apríl 2017. Samþykktir koma í stað laga Íslensku ICOMOS nefndarinnar frá 1999, sem falla þar með úr gildi.
TILVÍSANIR Í SAMÞYKKTIR ICOMOS 2014
samþykktir ICOMOS ÍSLAND