Siðareglur ICOMOS

Þessar siðareglur voru settar á 18. aðalfundinum (Flórens 2014) og leystu af hólmi Yfirlýsingu um siðferðilega skuldbindingu sem samþykkt var á 13. aðalfundinum (Madríd 2002).

Formáli

The International Council on Monuments and Sites (ICOMOS) eru frjáls félagasamtök sem hafa það að markmiði að stuðla að verndun menningarminja (minnismerkja, bygginga og staða) í áþreifanlegu og óáþreifanlegu tilliti, í öllum fjölbreytileika sínum.

ICOMOS nær markmiði sínu í gegnum meðlimi og nefndir, starfsemi og samstarf við önnur samtök. Meðlimir ICOMOS deila sameiginlegum grunnreglum og endurspegla um leið fjölbreytta sérhæfingu og hæfni á sviði verndunar menningarminja.

Siðareglur ICOMOS tilgreina ábyrgðarsvið meðlima ICOMOS og stofnana þess varðandi verndun menningarminja og í tengslum við ICOMOS.

1. grein – Gildissvið

a Siðareglurnar skulu gilda um alla meðlimi ICOMOS. Auk þess skulu siðareglurnar gilda um allar landsbundnar og alþjóðlegar vísindanefndir og aðrar stofnanir ICOMOS. Því skulu ákvæði sem varða „meðlimi“ einnig gilda um nefndir og aðrar stofnanir ICOMOS, með nauðsynlegum og viðeigandi breytingum.

b Með því að ganga í ICOMOS og viðhalda aðild sinni að ICOMOS láta meðlimir í ljós að þeir samþykki að fylgja þessum siðareglum.

2. grein – Siðareglur sem varða menningarminjar

a Meðlimir ICOMOS berjast fyrir og stuðla að verndun menningarminja og varðveislu þeirra fyrir kynslóðir framtíðarinnar í samræmi við markmið ICOMOS.

b Meðlimir ICOMOS berjast fyrir og hvetja til verndunar menningarminja. Þeir leggja sig fram við að tryggja að notkun á og afskipti af menningarminjum einkennist af virðingu.

c Meðlimir ICOMOS viðurkenna efnahagslegt, félagslegt og menningarlegt hlutverk minja í því að knýja sjálfbæra þróun á hverjum stað fyrir sig og á heimsvísu.

d Meðlimir ICOMOS viðurkenna og virða áþreifanlegt og óáþreifanlegt verðmæti menningarminja sem auðga menningu og kunna að hafa ólíka merkingu fyrir mismunandi hópa og samfélög.

e Þar sem yfirvofandi hætta steðjar að menningarminjum bjóða meðlimir ICOMOS alla mögulega aðstoð sem er raunhæf og viðeigandi, að því gefnu að hún leggi ekki heilsu eða öryggi þeirra eða annarra í hættu.

3. grein – Siðareglur sem varða almenning og samfélög

a Meðlimir ICOMOS viðurkenna að þeir hafa almenna siðferðilega skyldu til að vernda menningarminjar og varðveita þær fyrir núverandi og komandi kynslóðir, og sérstaka skyldu varðandi aðgerðir sem framkvæmdar eru á eigin forræði.

b Meðlimir ICOMOS leggja sig fram við að tryggja að almannahagur sé hafður í huga við ákvarðanatöku sem varðar menningarminjar.

c Meðlimir ICOMOS viðurkenna virði þátttöku samfélagsins í verndun menningarminja. Þeir eiga í samstarfi við fólk og samfélög sem tengjast menningarminjum.

d Meðlimir ICOMOS viðurkenna sambúð menningarlegra gilda, að því gefnu að þau brjóti ekki á mannréttindum og grundvallarfrelsi sem er tryggt í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eða öðrum alþjóðlegum samningum.

e Meðlimir ICOMOS styðja að stuðlað sé að aukinni vitund almennings, þar á meðal skilningi á, aðgangi að og stuðningi við menningarminjar, bæði á lands- og heimsvísu.

4. grein – Siðareglur sem tengjast bestu venjum

a Meðlimir ICOMOS veita eins góð fagleg ráð og þjónustu og þeir geta varðandi verndun menningarminja innan síns sérsviðs.

b Meðlimir ICOMOS verða að viðurkenna þá kennitexta sem samþykktir eru af aðalfundi ICOMOS. Þeir kynna sér alþjóðlega sáttmála, meðmæli og leiðbeiningar, sem tengjast menningarminjum, sem innleiddar eru af UNESCO og öðrum alþjóðlegum samtökum og eiga við um þeirra störf.

c Meðlimir ICOMOS vinna sína vinnu með faglegum hætti og í samstarfi við aðra.

1 Meðlimir ICOMOS eru hlutlausir, vandvirkir og beita vísindalegum aðferðum.

2 Meðlimir ICOMOS viðhalda, skerpa á og uppfæra þekkingu sína á verndun menningarminja.

3 Meðlimir ICOMOS viðurkenna að vinna að verndun menningarminja krefst þverfaglegrar nálgunar og stuðla að samstarfi þverfaglegra teyma sérfræðinga, ákvörðunaraðila og allra hagsmunaaðila.

4 Meðlimir ICOMOS sýna menningarlegri fjölbreytni og fjölbreytni tungumála virðingu.

5 Meðlimir ICOMOS tryggja að almennt umfang og samhengi vinnu þeirra, þar á meðal hömlur af öllu tagi, sé útskýrt með fullnægjandi hætti.

6 Meðlimir ICOMOS ganga úr skugga um að ítarlegar, endingargóðar og aðgengilegar skrár séu gerðar um það verndarstarf sem þeir bera ábyrgð á. Þeir tryggja að slíkum skjölum sé komið í varanlega geymslu eins fljótt og auðið er, og þau gerð aðgengileg almenningi ef það er í samræmi við menningarleg og verndartengd markmið.

d Meðlimir ICOMOS sem starfa við menningarminjar nýta hæfni sína, vandvirkni og elju til að tryggja að ákvarðanir um verndun menningarminja séu úthugsaðar og upplýstar.

1 Meðlimir ICOMOS tryggja að ákvarðanir þeirra um verndun menningarminja byggist á nægilegri þekkingu og rannsóknum og gildandi stöðlum um góðar starfsvenjur.

2 Meðlimir ICOMOS gera sitt besta til að tryggja að raunhæfir kostir séu kannaðir, og að hægt sé að réttlæta þá kosti sem eru valdir.

3 Meðlimir ICOMOS gera sitt besta til að tryggja að mikilvægar ákvarðanir um verkefni sem varða verndun menningarminja séu ekki eingöngu teknar af stjórnanda verkefnisins heldur séu þær niðurstaða sameiginlegrar og þverfaglegrar íhugunar.

5. grein – Siðferðileg hegðun

a Meðlimir ICOMOS stunda alla sína vinnu með opnum, heiðarlegum, umburðarlyndum, sjálfstæðum, hlutlausum og ábyrgum hætti.

1 Meðlimir ICOMOS verða að forðast, eða þar sem við á upplýsa með viðeigandi hætti um, alla raunverulega eða mögulega hagsmunaárekstra sem gætu stofnað sjálfstæði, óhlutdrægni og hlutleysi starfs þeirra í hættu. Meðlimir og nefndir ICOMOS mega hvorki þiggja né gefa gjafir eða aðra hvatningu sem gæti haft áhrif eða virst hafa áhrif á sjálfstæði þeirra.

2 Meðlimir ICOMOS verða að forðast að vera dómarar í eigin sök: þegar þeir starfa að verki sem varðar ákveðinn stað og eru einnig hluti af ráðgjafar- eða ákvörðunarvaldi svæðis- eða landstjórnar mega þeir ekki koma að neinni ákvörðun sem varðar þann stað.

3 Meðlimir ICOMOS verða að virða trúnað allra gagna, þar á meðal skjala, álita og umræðna, sem þeir hafa haft aðgang að í sínum störfum.

b Meðlimir ICOMOS virða og viðurkenna hugverk annarra. Þeir verða að vitna í, vísa í og birta með nákvæmum og sönnum hætti hugverk, efnisleg verk og hagnýt verk annarra.

c Meðlimir ICOMOS verða að skýra hvort faglegar skoðanir og álit sem þeir tjá séu þeirra eigin eða þeirrar stofnunar sem þeir koma fram fyrir.

d Meðlimir ICOMOS leggjast gegn rangfærslum og fölskum upplýsingum um menningarminjar og verndarstarf; þeir eru á móti því að leyna eða hagræða gögnum og niðurstöðum.

6. grein – Siðareglur sem tengjast ICOMOS og meðlimum þess

a Meðlimir ICOMOS eru samstarfsfúsir, tryggir og sýna öðrum meðlimum tillitssemi.

b Meðlimir ICOMOS stuðla að útbreiðslu þekkingar með því að deila upplýsingum og reynslu innan ICOMOS, sérstaklega á alþjóðlegum vettvangi.

c Meðlimir ICOMOS veita yngri samstarfsmönnum leiðsögn og deila þekkingu sinni og reynslu til að mynda samstöðu milli kynslóða.

d Meðlimir ICOMOS mega ekki nota stöðu sína innan ICOMOS, eða trúnaðarupplýsingar sem þeir komast yfir í gegnum vinnu sína fyrir ICOMOS, sér til persónulegs ávinnings.

e Meðlimir ICOMOS sem inna af hendi vinnu að beiðni ICOMOS verða að fara eftir öllum sérstökum reglum sem stjórn ICOMOS hefur sett um slíka vinnu. Því þurfa meðlimir ICOMOS sem inna af hendi vinnu sem tengist Samningnum um verndun menningar- og náttúruminja heimsins (1972) að fara eftir meðfylgjandi „Stefnu um innleiðingu tilskipunar ICOMOS um heimsminjar“ með uppfærslum.

f Meðlimir ICOMOS koma fram af virðingu gagnvart samtökunum og bæta og viðhalda orðspori þeirra og sjálfbærni.

1 Meðlimir ICOMOS verða að virða samþykktir ICOMOS og samþykktir landsnefnda, sem og lög alþjóðlegra vísindanefnda þeirra.

2 Meðlimir ICOMOS mega ekki setja fjárhagslega stöðu ICOMOS og nefnda þess í hættu.

3 Meðlimir ICOMOS skulu hafa í huga að heiti og merki ICOMOS tilheyrir ICOMOS.

4 Meðlimir ICOMOS mega ekki koma fram eða tala fyrir hönd ICOMOS eða einhverrar nefndar þess, án samþykkis viðeigandi aðila og skal í slíkum tilfellum fylgja nákvæmlega opinberri afstöðu ICOMOS.

5 Frambjóðendur í stöður innan ICOMOS mega heyja sína kosningabaráttu með aðferðum sem öllum meðlimum ICOMOS standa til boða; þeir mega ekki fá opinber, almenn eða einkasamtök til að heyja kosningabaráttu fyrir þeirra hönd.

7. grein – Innleiðing og breytingar

a Landsbundnar og alþjóðlegar vísindanefndir ICOMOS skulu dreifa siðareglunum og tryggja innleiðingu þeirra.

b Ef ekki er farið eftir siðareglunum kann það að teljast refsivert brot. Meint dæmi um refsiverð brot skulu skoðuð og rædd við viðkomandi aðila og kunna eftir skoðun að leiða til viðurlaga, sem sett eru fram í 7. grein samþykkta ICOMOS.
c Landsbundnar og alþjóðlegar vísindanefndir ICOMOS mega setja viðbótarsiðareglur að því gefnu að þær fari ekki í bága við samþykktir ICOMOS, þessar siðareglur eða nokkra aðra viðeigandi kennitexta ICOMOS.

d Siðareglurnar skulu endurskoðaðar á minnst sex ára fresti af stjórn ICOMOS og skal hún skila skýrslu til aðalfundar í samræmi við 10. grein samþykktanna. Allar breytingar á siðareglum ICOMOS skulu samþykktar af aðalfundi ICOMOS að tillögu stjórnar.